Skammarkrókurinn

Skammarkrókur Steinunn Gunnlaugsdóttir

Gjörningur framin 7. desember á upplestrar og gjörningarkvöldinu Aðventurót – Aðventudótarí skipulögðu af Gunnhildi Hauksdóttur og fór fram á vinnustofu Egils Sæbjörnssonar, K18, í Berlín. Dagskráin fór fram á íslensku.Skammarkrókurinn

Gjörningurinn hófst á upplestri eftirfarandi bréfs:

Kæru gestir,

ég hef ekki hagað mér vel að undanförnu.

Ég hef ekki vandað framkomu mína.

Þetta veit ég þó svo að enginn hafi tilkynnt mér það, hvorki munnlega né skriflega og ég hef ekki heyrt neitt um brot mín útundan mér.

Afglöp mín eru ekki þess eðlis að þau brjóti landslög og því ekki ástæða fyrir ríkisvaldið að rétta yfir mér og refsa.

En þar liggur flísin í sárinu – því jú vissulega skammast ég mín og ég veit fyllilega upp á mig sökina. En það eitt og sér þurrkar hvorki út né jafnar misgjörðir mínar. Réttlætinu hefur ekki verið framfylgt – ég hef ekki tekið út refsinguna. Ég er í skuld við réttlætið!

Einhver gæti sagt að dómur minn sé að sitja uppi með byrgði þess er einn veit sínar sakir. En þannig greiðir maður ekki skuldir sínar. Ekki gera ekki neitt er viðeigandi hér eins og í öðrum skuldatilfellum.

Af heiðarleika hef ég leitað lengi að viðeigandi leið til að greiða skuld mína til baka. Ég tel mig nú hafa fundið hana – úr bernskuminningum mínum gróf ég hann upp: Skammakrókinn. Þegar ég heyrði svo að samlandar mínir væru að fara að hittast hér í borg í desember vissi ég að það væri hin rétta samsetning: skammarkrókur og samfélag sem þekkir deili á mér … því einungis þannig getur refsingin haft tilætluð áhrif – einungis í votta viðurvist samfélags samþegna verður skammarkrókurinn fullnægjandi úrræði.

Kæru samlandar,

ég verð í skammakróknum í kvöld. Ég bið ykkur að hafa í huga að meðan á refsingunni stendur að gefa mér engan gaum – neikvæð athygli er betri en engin og sú athygli gæti auðveldlega afvegaleitt mig enn frekar. Ég bið ykkur samkvæmt uppskrift skammakróksins að njóta kvöldsins og dagskránnar og hundsa mig með öllu þar sem ég mun sitja við fótskör ykkar og borga það til baka sem ég hef tekið ófrjálsri hendi og á skjön við þá óskrifuðu sáttmála sem í samfélagnu ríkja.

Ég er þakklát

Ég iðrast

Ég er óhrædd

Ég iðrast

Ég tek út mína refsingu – greiði mínum skuldunautum

Ég iðrast

Ég beigi mig í duftið í von um að ég megi verða aftur heil og að friður muni ríkja í samfélaginu um glæp minn og refsingu.

Skammarkrókurinn - refsingin

 Að lestri loknum fór sakamaðurinn undir borð og dúsaði undir öllum þeim borðum er á svæðinu voru það sem eftir lifði kvölds. Þar með telst að sakamaðurinn hafi tekið út refsingur sína – afplánuninni er lokið og því til sönnunar eru öll vitnin auk þess tók sakamaðurinn upp myndband með myndavél sem var fest á höfuð hennar.

Aðrir sem fram komu á kvöldinu: Bryndís Björnsdóttir, Gunnhildur Hauksdóttir, Haraldur Jónsson, Kristín Ómarsdóttir, Auður Jónsdóttir, Þórarinn Leifsson og Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson.